Landsvirkjun hagnaðist um 26,5 milljónir dala á síðasta ári. Það jafngildir 3,4 milljörðum króna. Árið á undan nam hagnaðurinn hins vegar 72,9 milljónum dala, jafnvirði rúmra 9 milljarða króna.

Fram kemur í uppgjöri Landsvirkjunar að rekstrartekjur hafi numið 436,2 milljónum dala sem hafi verið 15,5% aukning á milli ára.  Þá nam rekstrarhagnaður (EBTIDA), þ.e. hagnaður fyrirtækisins fyrir fjármagnsliði, skatta og gjöld, 345,2 milljónum dala. Það gerir 43,8 milljarða íslenskra króna. EBTIDA-hlutfallið 79,1% samanborið við 78,9% í hittifyrra.

Handbært fé Landsvirkjunar frá rekstri nam 267,2 milljónum dala í lok síðasta árs sem er 16,4% aukning á milli ára.

Í uppgjöri fyrirtækisins er haft eftir forstjóranum Herði Arnarsyni, að fjárhagsstaðan hafi batnað nokkuð í fyrra, einkum vegna tekjuaukningar sem megi rekja til breytinga á samningum um raforkuverð og hækkun álverðs.

Mælt með milljarðaarði

Stjórn Landsvirkjunar leggur til fyrir næsta aðalfund að greiddur verði arður upp á 1,8 milljarða króna vegna afkomunnar í fyrra. Þetta er einhver hæsta arðgreiðsla félagsins. Landsvirkjun hefur í gegnum tíðina greitt eigendum sínum, ríkinu, afar lítinn arð og hefur hann hlaupið á nokkuð hundruð milljóna króna. Hörður hefur sjálfur sagt upphæðirnar svo lágar að þær jafngildi því að vera nær engar. Stjórn Landsvirkjunar lagði til árið 2007 að greiddur yrði um 500 milljóna króna arður af rekstri fyrirtækisins árið á undan. Eftir hrun hefur Landsvirkjun hins vegar ekki greitt út neinn arð.