Nýherjasamstæðan hagnaðist um 14,9 milljónir króna á fyrstu þremur mánuðum ársins. Til samanburðar 63,6 milljónir króna á sama tíma í fyrra.

Fram kemur í uppgjöri fyrirtækisins að rekstrarhagnaður fyrir fjármagnsliði, afskriftir og gjöld hafi numið 123 milljónum króna á tímabilinu.

Forstjórinn Þórður Sverrisson segir í tilkynningu afkomuna hér á landi ágæta en erlendu starfsemina undir áætlun. Hann bendir á eftirspurn eftirr tækniþjónustu hafi vaxið og að sala á eigin hugbúnaðarlausnum TM Software aukist mikið. „Einkum er mikill vöxtur í sölu á Tempo tímaskráningarkerfi TM Software,“ segir hann.

Aukin eftirspurn er eftir alrekstrarþjónustu, þar sem Nýherji annast allan tölvurekstur viðskiptavina, gegn föstu mánaðargjaldi. Tæknisérfræðingar Nýherja hafa unnið að ýmsum stórum uppsetningum í ársfjórðungnum, svo sem á IBM, TSM afritunarbúnaði, IBM Storwise gagnageymslukerfi og Office 365 skýlausnum. Verkefni tæknisviðs fara vaxandi og voru verkefni fleiri í mars en nokkru sinni áður í einum mánuði.

Rekstur og afkoma Applicon í Svíþjóð, sem leggur áherslu á þjónustu við banka og fjármálafyrirtæki var í samræmi við áætlanir. Meðal verkefna var uppsetning á Calypso lausnum fyrir sænska banka. Þá er innleiðing á SAP bankalausn fyrir Landshypotek vel á veg komin. Verkefnastaða félagsins er góð og áætlanir gera ráð fyrir áframhaldandi jákvæðri afkomu á árinu.

Applicon A/S í Danmörku hefur unnið að þróun og uppsetningu á umfangsmikilli lausn fyrir sjúkrahús í rekstri Region  Hovedstaden á Sjálandi síðastliðin 2 ár. Lausnin var afhent í fyrsta ársfjórðungi og var tekin í rekstur á sjúkrahúsinu í Herlev, sem er fyrsta sjúkrahúsið af tólf, þar sem þessi lausn verður innleidd. Kostnaður vegna þessarar uppsetningar hefur farið mikið fram úr áætlun og valdið tapi í rekstri Applicon A/S. Aðgerðir núverandi stjórnenda hafa miðað að því að tekjur félagsins verði betur tryggðar og dregið verði úr áhættu. Tekist hefur að lækka kostnað af starfseminni og eru því horfur á því að afkoma verði betri á síðari árshelmingi.

Uppgjör Nýherja