Gistinætur á hótelum voru 3,2 milljónir í fyrra og var það 8,3% fjölgun á milli ára. Erlendir ríkisborgarar voru 75% af heildarfjöldanum og fjölgaði þeim um 14%. Íslenskum gestum fjölgaði um 6% á sama tíma, samkvæmt upplýsingum Hagstofunnar.

Fram kemur í Gistiskýrslum Hagstofunnar sem kom út í dag að Þjóðverjar hafi sem fyrr verið í meirihluta þeirra sem gistu á hótelum landsins á eftir Bretum og Bandaríkjamönnum.

Fram kemur í Gistiskýrslunum að Bandaríkjamönnum fjölgaði hlutfallslega mest hér í röðum ferðamanna, um 64% á milli ára. Á hæla þeirra komu Asíubúar, aðrir en Japanir og Kínverjar. Þeim fjölgaði um 51% frá árinu 2010. Þá gistu hér 50% fleiri ferðamenn frá Kanaada en árið áður. Kínverjum fjölgaði um 45% en Dönum um 5%.

Flestar gistinætur voru á hótelum og gistiheimilum (70%), á tjaldsvæðum 15% og 6% á farfuglaheimilum. Gistinóttum fjölgaði milli ára á öllum tegundum gististaða nema svefnpokagististöðum og tjaldsvæðum.

Hlutfallslega fjölgaði gistinóttum mest á Suðurnesjum og höfuðborgarsvæðinu, en einnig varð nokkur fjölgun á Norðurlandi vestra, Suðurlandi og Vesturlandi. Á Austurlandi var fjöldi gistinátta svipaður milli ára. Gistinóttum fækkaði hins vegar á Vestfjörðum og Norðurlandi eystra, að því er fram kemur í Gistiskýrslum Hagstofunnar.