Century Aluminum [ CENX ], sem er skráð á First North, skilaði inn uppgjöri fyrir fyrsta ársfjórðung eftir lokum markaða í Bandaríkjunum í dag. Félagið skilaði tæplega 233 milljóna dollara tapi, sem skýrist af 448 milljóna dollara tapi fyrir skatta af framvirkum samningum en á sama fjórðungi í fyrra var 390 þúsund dollara hagnaður af slíkum samningum. Eftir skatta gerir þetta 286 milljóna dollara tap. Frekari tölur úr reikningum er að finna í meðfylgjandi töflu.

Í tilkynningu frá félaginu segir forstjóri félagsins, Logan Kruger, að mikilvægum áfanga hafi verið náð í byggingu álvers við Helguvík. Einnig hafi stækkun álversins við Grundartanga skilað góðum árangri á fyrsta fjórðungi. Hátt hrávöruverð styðji síðan við afkomu félagsins.

Hlutabréf Century lækkuðu talsvert í viðskiptum dagins í Bandaríkjunum, eða um 6,17%. Eftir lokun markaða hafa bréfin hins vegar hækkað lítillega sem bendir til þess að uppgjörið hafi farið þokkalega í fjárfesta.