Upp úr kl. 18 dag verður ljóst hverjir fá að senda inn lokuð tilboð í eignir Spron en í forvalsferlinu hefur Færeyjarbanki (Føroya banka) lýst yfir áhuga sínum að einhverju af útibúum Spron. Menn telja það vísbendingu um að þeir hafi fullan hug á að koma inn á íslenska markaðinn og komast í viðskipti við einstaklinga.

Samkvæmt heimildum Viðskiptablaðsins er talið að það sé ekki einfallt að taka við útibúaneti Spron eins og það er núna þar sem útlánin hafa verið flutt til Nýja Kaupþings og því sitja eftir skuldbindingar viðskiptavina við Spron. Það krefst talsverðrar eiginfjárskuldbindingar, sérstaklega ef engin innlán eru tekin á móti.

Mesta baráttan virðist vera um Netbankan, nb.is. Þar hefur verið hröð tímaröð. Fyrir klukkan 16 í gær áttu áhugasamir að senda inn óskuldbindandi tilboð og sendu allmargir aðilar inn tilboð þá. Með því fylgdu mjög takmarkaðar upplýsingar. Í dag kl. 18 á að liggja fyrir hverjir hafa sent inn bindandi tilboð. Þarna er um að ræða skelina, tölvubúnað, ferla, kerfi, aðild að greiðslukortafélögum og Reiknistofu bankanna.

Bjóðendur fengu upplýsingar um að það væri litið mjög jákvæðum augum ef þeir léttu skuldbindingum af Spron eins og með því að taka yfir ráðningasamninga.

Komið hefur fram að MP banki hefur boðið í tvö útibú Spron ásamt Netbankanum. VBS Fjárfestingabanki komst ekki í lokaferli vegna Netbankans.