Til að geta haldið áfram málaferlum í Bretlandi um réttmæti ákvörðunar breskra stjórnvalda í aðdraganda falls Kaupþings verður íslenska ríkið að leggja fram fjármuni. Að sögn Jóhannesar Rúnars Jóhannssonar, hæstaréttarlögmanns og fulltrúa skilanefndar Kaupþings í málinu, gæti kostnaðurinn hlaupið á tugum milljóna króna.

Að sögn Jóhannesar er áhættan samfara frekari málaferlum veruleg enda fullkomlega óvíst hvernig þeim gæti reitt af. Þar sem skilanefnd lítur fyrst og fremst á það sem hlutverk sitt að vernda hagsmuni kröfuhafa og vernda eignir sagði hann nefndina ekki í aðstöðu til að fella kostnað á búið.

Jóhannes sagði að ríkisvaldið hefði verið upplýst um þessa hlið málsins og það hefði stutt við fyrsta áfanga málsins án þess þó að nein kostnaður hefði fallið á ríkisveldið ennþá. Jóhannes benti á að það væri nokkur áfangi að komast í gegnum fyrsta áfanga málsins sem t.d. hluthöfum Northern Rocks bankans hefði ekki tekist. Hann sagði því ekki sjálfgefið að fá málsskotsheimild eins og Kaupþing hefði fengið núna.