Gjaldeyrismarkaðurinn var með líflegra móti í dag, sérstaklega ef miðað er við síðustu vikur og styrktist krónan um ríflega 3% samkvæmt upplýsingum frá Glitni.

Miðað við aðgerðir Seðlabanka í desember þótti sérfræðingum ekki ólíklegt að hann hafi komið eitthvað að málum síðustu daga en engar staðfestingar hafa fengist á því. Greiningardeild Glitnis velti þeim möguleika upp í Morgunkorni sínu fyrr í dag.

"Söluþrýstingur virðist hins vegar almennt hafa einkennt markaðinn og trúlega hafa mun fleiri verið þar á ferð en Seðlabankinn einn. Það má til dæmis velta fyrir sér hvort ekki hefur komið styggð að ýmsum sem eiga innistæður á gjaldeyrisreikningum eftir sex daga samfellda styrkingu krónu, því ekki einasta eru þeir að verða af talsvert háum vaxtatekjum heldur rýrnar höfuðstóllinn, mælt í krónum, dag frá degi þegar slíkt styrkingarferli er í gangi," sagði einn sérfræðingur í samtali við Viðskiptablaðið.