Á lista Ríkisskattstjóra yfir hæstu gjaldendur í álagningu einstaklinga er að finna nokkur vel þekkt nöfn, en einnig nöfn nokkurra sem minna þekktir eru.

Má þar t.a.m. nefna Sigurð Örn Eiríksson tannlækni en hann greiðir samkvæmt samantektinni 109,6 milljónir króna í tekju- og auðlegðarskatta í ár. Fjallað var um Sigurð og eiginkonu hans, Berglindi Björk Jónsdóttur tónlistarkennara í Viðskiptablaðinu í fyrra en þau voru þar í sjöunda sæti auðmannalistans.

Faðir Berglindar er Jón Guðmundsson heitinn, útgerðarmaður í Hafnarfirði. Jón rak umsvifamikla fiskvinnslu í Hafnarfirði, Sjólastöðina.

Sveinlaugur Kristjánsson, sem greiddi alls 102,8 milljónir króna í skatt er enginn nýgræðingur í íslensku athafnalífi. Hann var á sínum tíma yfirmaður fjárreiðudeildar Olís og var framkvæmdastjóri eignarhaldsfélagsins Sunds þegar Sund keypti ásamt öðrum 15,55% í Samskipum árið 1996. Þá var hann framkvæmdastjóri Sjóvíkur.