Rekstrarhagnaður (EBITDA) 365 miðla ehf, sem reka meðal annars Fréttablaðið, Vísir.is og stöð2, nam 808 milljónum króna á síðasta ári. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá 365 miðlum. Þar segir að ársreikningi hafi verið skilað til fyrirtækjaskrár Ríkisskattstjóra í dag.

Heildarvelta á árinu 2009 nam 7.966 milljónum króna. Afskriftir og fjármagnsliðir námu 1.152 milljónum króna og tap ársins var 344 milljónir króna.

Eigið fé nam 733 milljónum króna í árslok 2009 og eiginfjárhlutfall var 9,3%. Handbært fé var 235 milljónir króna.

„Fjárhagsstaða félagsins hefur styrkst verulega á árinu 2010.  Í lok mars 2010 var hlutafé félagsins aukið um 1.000 m.kr.  og var aukningunni  að miklu leyti ráðstafað til niðurgreiðslu skulda í byrjun apríl,“ segir í tilkynningu frá félaginu.

Eiginfjárhlutfall hækkað

Í tilkynningunni segir að eiginfjárhlutfall eftir fyrstu 9 mánuði ársins í ár sé 20,3%. Segir að rekstrarhagnaður sé 594 milljónir króna á tímabilinu sem er í takti við áætlanir félagsins.