Sala Marels jókst um tæp 62% á árinu 2006 en hagnaður ársins nam aðeins um 159 þúsund evrum samanborið við 5,7 milljónir árið 2005.  Tap á fjórða ársfjórðungi nam 0,5 milljónum evra eða 45 milljónum króna.

Í tilkynningu félagsins til kauphallarinnar kemur fram að sala ársins 2006 nam 208,7 milljónum evra samanborið við 129,0 milljónir sem er um 61,7% aukning frá fyrra ári. Áhrifa AEW Delford Systems í Bretlandi gætir frá 7. apríl og Scanvægt frá 4. ágúst síðastliðnum í samstæðureikningi Marel. ?Proforma? sala á árinu 2006 nam alls 272 milljónum evra.

Rekstrarhagnaður EBIT, fyrir einskiptiskostnað var 11,5 milljónir (5,5% af sölu) og eftir hann 7,5 milljónir evra sem er 3,6% af sölutekjum samanborið við 9,7 milljónir eða 7,5% af sölu árið áður. Gjaldfærður einskiptiskostnaður vegna samþættingar nam um 4 milljónum evra þar af um 2.5 milljónir á fjórða ársfjórðungi.

Fjármagnsgjöld voru um 5,0 milljónir evra samanborið við 2,6 milljónir evra árið áður. Hækkun stafar af aukinni starfsemi tengdum kaupum á AEW Delford Systems og Scanvægt. Tap af hlutdeildarfélagi (1,4 milljónir evra) má rekja til verðlækkunar á hlutabréfum í hollenska fyrirtækinu Stork NV en þau eru færð á markaðsvirði.

Handbært fé í lok tímabilsins nam 63,1 milljón evra. Eigið fé rúmlega þrefaldaðist á árinu, hækkaði úr 41 milljón í 144 milljónir evra og eiginfjárhlutfall var 39,6% í árslok 2006. Fjárfestingargeta félagsins til frekari ytri vaxtar er því umtalsverð án þess að til hlutafjáraukningar þurfi að koma.

Í tilkynningunni kemur fram að félagið er vel fjármagnað og um 75% af langtímalánum þess eru til endurgreiðslu eftir meira en 5 ár.

Sala 4. ársfjórðungs 2006 nam 71,9 milljónum evra samanborið við 34,8 milljónir sem er rúmlega tvöföldun (107%) miðað við sama tímabil árið áður. Frá fjórða ársfjórðungi 2005 hafa félögin AEW Delford Systems og Scanvægt bæst við annars vegar 7. apríl og hins vegar 4. ágúst. ?Proforma? söluaukning á fjórða ársfjórðungi frá sama tíma 2005 nemur 4%.

Rekstrarhagnaður EBIT á fjórða ársfjórðung 2006 var 1,1 milljónir evra sem er 1,5% af tekjum samanborið við 1,3 milljónir í fyrra.



·