Tap Eignarhaldsfélagsins Bolar ehf. nam 8,6 milljónum króna á fyrri árshelmingi 2006, en á sama tímabili í fyrra var 488,4 milljón króna hagnaður af starfseminni, segir í tilkynningu til Kauphallar Íslands.

Við samanburð á milli ára er rétt að hafa í huga að verulegar breytingar urðu á starfsemi félagsins vorið 2005 en þá seldi félagið verulegan hluta af starfsemi sinni til Promens hf. eins og fram kom í fréttatilkynningu frá félaginu 3. maí 2005 og var hagnaður af rekstri félagsins í fyrra tilkominn vegna framangreindrar sölu, segir í tilkynningunni.

Rekstur samstæðu Eignarhaldsfélagsins Bolar ehf. samanstendur af þremur rekstrarfélögum Sæplast Norge AS, Sæplast Ålesund AS. og Sæplast Canada Inc. auk móðurfélagsins. Ákveðið var að sala á Sæplasti Canada Inc. til Promens hf. sem tilkynnt var fyrr á árinu gengi til baka en félagið er rekið í samvinnu við rekstur Promes félaganna í Norður Ameríku.

Niðurstöður efnahagsreiknings eru 2.659 milljónir króna þar af eigið fé 759,0 milljónir króna og er eiginfjárhlutfall 28,6%.