Færeyska viðskiptablaðið Vinnuvitan tapaði 1,7 milljónum danskra króna á rekstri sínum á liðnu ári, eða sem nemur 29 milljón króna íslenskra. Í umfjöllun blaðsins um rekstrarhallann og ástæður hans er m.a. bent á að launakostnaður hafi íþyngt rekstrinum. Föst gjöld fyrirtækisins séu orðin himiná og eigið fé útgáfufélagsins uppurið, en þó sé ástandið ekki alslæmt ef reksturinn sé skoðaður grannt og bjartari horfur framundan.

Í frétt Vinnuvitans um ástand sitt er bent á að útgáfufélag þess, Vinnuvitan P/F, sem eru í eigu dagblaðsins Dimmalætting, snýst ekki einvörðungu um blaðið. Það starfrækir einnig upplýsingavef um færeyskt viðskiptalíf, skipaskrá auk annarrar starfsemi, þar á meðal tímarit.

Nær út fyrir frumhugmyndina

„Viðskiptahugmynd stofnendanna er að safna á einn stað upplýsingum um skip, fyrirtæki og atvinnulíf og miðla til neytenda,” segir í blaðinu. „En á seinasta ári keypti Vinnuvitan líka Vikublaðið, þannig að segja má að starfsemin sé farin að ná út fyrir svið frumhugmyndarinnar. Brúttóhagnaðurinn hjá fyrirtækinu hefur aukist stöðugt seinustu ár og hagnaður 2005 og 2006 hefur verið um 1,5 milljónir danskra króna. En 2007 nemur hallinn 1,7 milljónum danskra króna. Fljótt á litið virðist sem launakostnaður sé höfuð útgjaldaliðurinn og orsök hallans.” Eigendur blaðsins eru þó bjartsýnir á að snúa rekstrinum við, rekstrargrundvöllurinn sé breiður og góðar líkur á að hann geti skilað hagnaði.