Sjötíu og fimm milljón króna tap var á rekstri Landsvaka á fyrri helmingi þessa árs. Félagið rekur verðbréfa-, fjárfestingar-, og fagfjárfestasjóði Landsbankans.

Í tilkynningu segir að Landsvaki annist rekstur 22 sjóða og hefur þeim fjölgað um einn frá árinu 2009. Tveir nýir sjóðir voru stofnaðir og einum var slitið. Heildarstærð sjóða Landsvaka nam 48,2 milljörðum króna í lok tímabilsins.

Tapið má einkum rekja til gengisbreytinga, að því er segir í tilkynningu. Segir að aðstæður hafi breyst til batnaðar eftir að heildareignir í stýringu minnkuðu verulega í kjölfar fall bankanna í október 2008. Á fyrri hluta ársins 2010 hafi ávöxtunarkrafa ríkisskuldabréfa farið niður með tilheyrandi verðhækkun á eignum ríkisskuldabréfasjóða. Raunávöxtun ríkisbréfa hafi einnig verið góð.

Eigið fé Landsvaka í lok júní nam 248 milljónum króna og eiginfjárhlutfall félagsins var 50,3%.