Íslenska hugbúnaðarfyrirtækið Betware tapaði um 32,7 milljónum króna á síðasta ári, samanborið við 12,7 milljóna hagnað árið áður. Tekjur félagsins árið 2012 námu um 1.150 milljónum króna en voru um 1.215 milljónir árið áður. Þetta kemur fram í ársreikningi félagsins fyrir 2012 sem skilað var til ársreikningaskrár RSK í september síðastliðnum.

Alls námu laun og launatengd gjöld um 970 milljónum og minnkuðu um 20 milljónir milli ára. Hjá félaginu störfuðu að jafnaði 111 starfsmenn. Heildareignir um áramót námu um 420 milljónum og eigið fé var 125 milljónir.

Betware framleiðir hugbúnað fyrir lottó og aðra fjárhættuleiki á netinu. Hluthafar voru 49 talsins í lok árs 2012. Stefán Hrafnkelsson er þeirra stærstur með 16,6% hlutafjár og þá á félagið Skógur ehf. tæplega 16%.

Eins og fram kom í fréttum í morgun hefur austurríska fyrirtækjasamsteypan Novomatic keypt 90% hlut í fyrirtækiniu. Fréttablaðið sagði kaupverðið nema á bilinu 2-3 milljarða króna.