Rekstrartekjur HB Granda hf. á öðrum ársfjórðungi ársins 2006 námu fjórum milljörðum króna, en voru 2.7 milljarðar króna á öðrum ársfjórðungi 2005, segir í tilkynningu til Kauphallarinnar.

Þrátt fyrir tekjuaukninguna nam tap fyrstu sex mánuði ársins 2.56 milljörðum króna, samanborið við 350 milljón króna hagnað á fyrri helmingi 2005

Tekjuvöxturinn á öðrum ársfjórðungi um 46% skýrist einkum af betri veiði á úthafskarfa, veiði Engeyjar, hærra afurðaverði í erlendri mynt og veikara gengi íslensku krónunnar, segir í tilkynningunni.

Rekstrarhagnaður fyrir afskriftir (EBITDA) á ársfjórðungnum var 887 milljónir króna eða 22,2% af rekstrartekjum, samanborið við 355 milljónir eða 13% sama tímabil árið áður. Hærra EBITDA hlutfall ræðst meðal annars af verðhækkunum og veikingu krónunnar.

Rekstrartekjur HB Granda hf. á fyrri árshelmingi ársins 2006 námu 7.7 milljörðum króna samanborið við 6.1 milljarð á sama tímabili í fyrra.

Rekstrarhagnaður fyrir afskriftir (EBITDA) var 1.7 milljarða króna eða 21,5% af rekstrartekjum, samanborið við 1.2 milljarðar króna eða 19,8% árið áður, segir í tilkynningunni.

Skipastóll HB Granda hf. samanstendur af 5 frystitogurum, 4 ísfisktogurum, 4 uppsjávarveiðiskipum og 1 uppsjávarfrystiskipi. Á öðrum ársfjórðungi 2006 var heildarbotnfiskafli skipa félagsins um 14 þúsund tonn og heildaruppsjávarafli um 52 þúsund tonn.