Verðþrýstingur hefur verið mikill í Frakklandi og valdið neikvæðum áhrifum á rekstur Bakkavarar í Evrópu. Hagræðingaraðgerðir í verksmiðjum félagsins í Frakklandi hafa að nokkru leyti minnkað áhrif þessa verðþrýstings en þó ekki að öllu leyti segir í tilkynningu félagsins. Sala félagsins á fyrstu sex mánuðum ársins nam 1,5 milljörðum króna (13 milljónir punda) og skilaði reksturinn 116,9 milljón króna (1 milljón punda) rekstrartapi á tímabilinu.

Unnið er að endurskoðun á starfseminni sem gert er ráð fyrir að hafi jákvæð áhrif á afkomu félagsins á komandi mánuðum og styrkja undirstöður rekstrarins fyrir framtíðarvöxt þess.

Í hálfsársuppgjöri Bakkavarar kemur fram að þróun markaðarins fyrir tilbúin og fersk matvæli á meginlandi Evrópu sé skemur á veg kominn en markaðurinn í Bretlandi. Um 8% af veltu félagsins er tilkomin í Evrópu og rekur félagið nú átta verksmiðjur í þremur löndum: Belgíu, Frakklandi og á Spáni. Starfsemi félagsins í Evrópu hefur að meginhluta til byggst á sölu tilbúinna rétta til hollenskra smásala og tilbúinna salata til helstu stórmarkaða í Frakklandi og á Spáni. Félagið hefur einnig selt vörur til McDonalds í nokkrum löndum álfunnar.