*

þriðjudagur, 3. ágúst 2021
Innlent 14. maí 2013 18:45

Tap Atlantic Airways minnkar milli ára

Atlantic Airways tapaði 2,7 milljónum danskra króna á fyrsta fjórðungi þessa árs.

Ritstjórn
Haraldur Guðjónsson

Færeyska flugfélagið Atlantic Airways tapaði 2,7 milljónum danskra króna á fyrsta fjórðungi þessa árs, samanborið við 4,3 milljóna króna tap á sama tíma í fyrra. Tapið í ár nemur um 57 milljónum íslenskra króna.

Velta jókst um 13% úr 91,9 milljónum danskra króna á fyrsta fjórðungi 2012 í 104,1 milljón á sama tíma í ár. Rekstrarkostnaður jókst minna, eða úr 84,9 milljónum í 90,7 milljónir. EBITDA hagnaður nam því 13,4 milljónum danskra króna í ár samanborið við rúmar sjö milljónir á sama tíma í fyrra. Afskriftir námu 14,3 milljónum danskra króna og þá nam hreinn fjármagnskostnaður 2,4 milljónum króna.

Í tilkynningu frá félaginu segir Magni Arge, forstjóri Atlantic, að fjölgun farþega hafi verið umtalsverð, en samt sé enn svigrúm til umbóta. Farþegum á vegum félagsins fjölgaði um 14% á milli ára að því er segir í tilkynningunni, en sætaframboð jókst um 20%, m.a. vegna þess að nýjar Airbus vélar hafa verið teknar í notkun.

Fyrirtækið gerir ráð fyrir því að hagnaður á þessu ári verði meiri en á síðasta ári, en varar þó við því að þættir eins og olíuverð, veðurfar og aukin samkeppni geti sett strik í þann reikning. Hagnaður Atlantic í fyrra nam rúmum 14 milljónum danskra króna.

Stikkorð: Atlantic Airways