Tryggingasjóður innstæðueigenda í Bretlandi (FSCS) reiknar með að tap sitt vegna Kaupthing Singer & Friedlander (KSF), Heritable Bank og Icesave-útibús Landsbankans í London verði á bilinu 95,2-138,4 milljarðar króna. Allir bankarnir þrír voru í íslenskri eigu fyrir bankahrun. Þetta kemur fram í ársskýrslu FSCS fyrir síðasta ár sem birt var 1. júlí síðastliðinn.

FSCS hefur þegar greitt út um 4,5 milljarða punda, um 820 milljarða króna á gengi dagsins í dag, vegna innstæðna sem voru inni á Edge-reikningum KSF, á Icesavereikningum Landsbankans í Bretlandi og á reikningum Heritable, sem var dótturfélag Landsbankans.

Þar er ekki tekið tillit til þeirra 2,35 milljarða punda, um 433 milljarða króna, sem ríkissjóður Bretlands greiddi út til Icesavereikningseigenda vegna lágmarkstryggingar á innstæðum. Það er sú upphæð sem Bretar hafa reynt að sækja í hinu svokallaða Icesave- máli. Íslendingar höfnuðu að ábyrgjast þá greiðslu í þjóðaratkvæðagreiðslu í apríl.

Nánar er fjallað um málið í nýjasta tölublaði Viðskiptablaðsins. Áskrifendur geta nálgast blaðið hér að ofan undir liðnum Tölublöð.