Álfyrirtækið Century Aluminum tapaði 9,7 milljónum dala, jafnvirði einum milljarði íslenskra króna, á fjórða ársfjórðungi í fyrra. Þetta er nokkru meira tap en á sama tíma í hittifyrra en þá nam það 6,9 milljónum dala. Á árinu öllu nam tap Century Aluminum 40,3 milljónum dala borið saman við 35,6 milljóna dala tap árið 2012.

Fram kemur í uppgjöri Century Aluminum sem birt var vestanhafs í gærkvöldi að velta jókst nokkuð á milli ára. Hún nam 401,2 milljónum dala á fjórða ársfjórðungi í fyrra borið saman við 317,7 milljónir dala á sama tíma árið 2012. Í magni talið jókst salan sömuleiðis á fjórðungnum en þá fór hún úr 162.202 tonnum í 216.755 tonn. Á árinu öllu nam veltan 1.454 milljónum dala borið saman við 1.272 milljónir dala árið 2012.

Í uppgjörstilkynningu er haft eftir Michael Bless, forstjóra Century Aluminum, að hann sé bjartsýnn á að eftirspurn eftir áli sé að glæðast á ný, ekki síst þar sem gengið hafi á birgðir. Þá fer hann góðum orðum um álverið á Grundartanga og bendir á að Helguvíkurverkefni Century Aluminum sé enn inni í myndinni.