Tap CVC á Íslandi ehf. nam 10,4 milljónum bandaríkjadala (um 726 milljónum króna) á fyrstu sex mánuðum ársins, segir í tilkynningu til Kauphallar Íslands.

Á sama tímabili í fyrra var tap fyrirtækisins 4,9 milljónir bandaríkjadalir.

CVC á Íslandi ehf. (hjáheiti CVC Iceland Holding ehf) var stofnað 23. ágúst 2002 af Columbia Ventures Corporation.

Rekstartekjur fyrirtækisins voru 14,1 milljónir dala á fyrstu sex mánuðum ársins, samanborið við 8,3 milljónir dala á sama tímabili í fyrra.

Rekstrargjöld námu 23 milljónum dala á fyrri helmingi árs, en voru 13,6 á sama tímabili í fyrra.

Félagið á erlend dótturfélög sem stofnuð voru til að kaupa og reka Hibernia Atlantic sæstrenginn á milli Evrópu og N-Ameríku ásamt lendingarstöðvum í 4 löndum. Þá hefur félagið fjárfest í fjarskiptafyrirtæki á Írlandi, Magnet Networks, sem sérhæfir sig í uppbyggingu samskiptakerfis og efnisveitu um ljósleiðara.

Helstu fjárfestingar félagsins hafa verið í framhaldstengingum Hibernia sæstrengsins, ásamt
frekari uppbyggingu fjarskiptafyrirtækisins Magnet Networks Ltd. á Írlandi, segir í tilkynningunni.

Þá hefur þjónustusvæði verið stækkað verulega með tengingum frá Southport til London á Englandi sem og með tengingum frá Boston svæðinu til New York borgar og Albany í Bandaríkjunum og þaðan til Montreal og Halifax í Kanada.

Þetta hefur gert Hibernia kleyft að meira en tvöfalda sölutekjur frá sama tíma á síðasta ári. Framhald er fyrirhugað á þessari uppbyggingu, segir í tilkynningunni.