Tap deCODE genetics, móðurfélags Íslenskrar erfðagreiningar, nam 24,2 milljónum dala eða um 1,4 milljarði króna á þriðja fjórðungi ársins. Tapið er 0,6 milljónum dala meira en á sama fjórðungi í fyrra að því er fram kemur í afkomutilkynningu félagsins. Þróunin á milli ára var svipuð ef litið er til fyrstu níu mánaða ársins og var tapið í ár rúmar 63 milljónir dala.

Peningalegar eignir minnka hratt

Tekjur deCODE á þriðja fjórðungi jukust töluvert á milli ára, eða úr 8,6 í 10,9 milljarða dala, en tekjur höfðu heldur dregist saman á fyrri helmingi ársins. Kostnaður hækkaði aðeins lítillega á milli ára á þriðja fjórðungi.

Peningalegar eignir fyrirtækisins minnkuðu um 33,4 milljónir dala, tæpa tvo milljarða króna, á fyrstu níu mánuðum ársins og námu 118,6 milljónum dala í lok þriðja fjórðungs.

Mikil lækkun hlutabréfa síðustu misseri

Gengi bréfa deCODE hefur farið nær stöðugt lækkandi síðast liðin tvö ár og frá síðustu áramótum hefur gengi bréfanna lækkað um fjórðung.