Tap deCode, móðurfélags Íslenskar erfðagreiningar, nam alls 12,6 milljónum Bandaríkjadala á fyrsta ársfjórðungi þessa árs samanborið við tap upp á 26,7 milljónir dala tap á sama tíma í fyrra.

Tapið nemur því 0,21 dal á hvern hlut, samanborið við 0,44 dali á sama tíma í fyrra samkvæmt uppgjörstilkynningu frá félaginu.

Þá námu tekjur félagsins á fyrsta ársfjórðungi 8,9 milljónum dala en voru á sama tíma í fyrra 15 milljónir dala en að sögn deCode má rekja minnkandi tekjur til færri þjónustusamninga félagsins.

Rannsóknar og þróunarkostnaður félagsins nam á fyrsta ársfjórðungi 4,2 milljónum dala en var á sama tíma í fyrra 12,7 milljónir dala. Í tilkynningunni frá félaginu kemur fram að áhersla deCode liggur nú í því að þróa frekar þær rannsóknir sem þegar hafa verið hafnar  og koma þeim í verð.

Eigið fé félagsins var í lok mars 6,1 milljón dala, samanborið við 3,7 milljónir dala í lok ársins 2008 en í byrjun árs seldi félagið skuldabréf fyrir um 11 milljónir dala og fékk greitt fyrir í reiðufé.