Eimskip tapaði 4,9 milljónum evra á fyrsta ársfjórðungi samanborið við 2,5 milljónir evra tap fyrir sama ársfjórðungi í fyrra.

Tekjur félagsins 161,7 milljónum evra og lækkuðu um 2,3 milljónir evra eða 1,4% frá sama ársfjórðungi 2019. Efnahagsáhrif heimsfaraldursins hafa umtalsverð áhrif á rekstur félagsins. Tekjur lækkuðu um 5,0% milli ára vegna lægra flutningsmagns í gámasiglingum og vegna þess að Herjólfur var í rekstri félagsins út fyrsta ársfjórðung 2019. Þá minnkaði magn í flutningsmiðlun um 7,4% en hins vegar jukust tekjur vegna hærri markaðsverðs.

EBITDA nam 9,3 milljónum evra á fyrsta ársfjórðungi 2020 samanborið við 13,2 milljónir evra  á sama ársfjórðungi síðasta árs sem er lækkun um 29,4%. Það er sagt skýrast að mestu af minna magni í siglingakerfi félagsins.

Fjárfestingar tímabilsins námu 4,9 milljónum evra samanborið við 8,3 milljónir evra fyrir sama tímabil síðasta árs en viðhaldsfjárfestingar voru sambærilegar. Dettifoss, annað tveggja skipa sem félagið er með í smíðum í Kína, var afhentur í apríl.

Kostnaður nam 152,3 milljónum evra sem er hækkun um 1,6 milljónir evra milli tímabila, hins vegar lækkaði launakostnaður um 3,0 milljónir evra eða 9,1%.  Afkomuspá félagsins var numin úr gildi í mars og ekki verður gefin út ný afkomuspá að svo stöddu.

Félagið á von á draga úr eftirspurn vegna heimsfaraldursins eftir flutningaþjónustu út þetta ár. Hins vegar telur Vilhelm Már Þorsteinsson, forstjóri félagsins að áhrifin verði minni á flutninga á kældum og frystum vörum, sem við sérhæfum okkur í á alþjóðavettvangi.

“Fyrsta ársfjórðungs ársins 2020 verður minnst sem tímans sem COVID-19 faraldurinn braust út. Strax í upphafi árs sáum við áhrif faraldursins  á reksturinn okkar í Kína sem síðan breiddist út um starfsemina á alþjóðavísu undir lok fjórðungsins. Neyðarstjórnunarteymi Eimskips var snemma virkjað og gríðarleg vinna hefur verið lögð í að tryggja öryggi og heilsu starfsfólks, að halda flutningakeðjunni gangandi og að viðhalda góðu þjónustustigi gagnvart viðskiptavinum á þessum krefjandi tímum. Við erum mjög meðvituð um hlutverk okkar sem mikilvægs innviðafyrirtækis og við jukum upplýsingaflæði til allra hagsmunaaðila gríðarlega á þessum tíma til að upplýsa og styðja við samfellu í rekstri og þar með draga úr óvissu tengdri flutningakeðjunni,“ er haft eftir Vilhelm í tilkynningu frá Eimskipum.

„Í byrjun apríl tilkynntum við um aðlaganir á gámasiglingakerfinu okkar en sú aðgerð var hluti af rekstraraðgerðum sem gripið var til vegna áhrifa faraldursins. Í tengslum við þá breytingu var leiguskipunum Goðafossi og Laxfossi skilað fyrr en áætlað var til að lækka fastan rekstrarkostnað. Við erum farin að sjá jákvæð fjárhagsleg áhrif af hagræðingaraðgerðum síðasta árs eins og sjá má á launum og stjórnunarkostnaði sem lækkaði um 9% á milli ára. Frá upphafi þessa árs hefur stöðugildum hjá félaginu fækkað um 170 eða sem nemur 10% af heildar starfsmannafjölda. Þessi fækkun hefur náð til allra laga í fyrirtækinu, þar með talið framkvæmdastjórnar. Vegferð hagræðingar og samþættingar undanfarið ár hefur verið krefjandi fyrir okkur í framkvæmdastjórninni þá sérstaklega er snýr að fækkun starfsfólks. Þessar aðgerðir hafa hins vegar verið nauðsynlegar þegar litið er til afkomu félagsins og neikvæðrar þróunar á flutningsmagni í siglingakerfinu síðustu tvö árin. Við höfum fjárfest töluvert í sjálfvirknivæðingu og endurhönnun verkferla síðustu ár sem styður við þessar aðgerðir,“ er enn fremur haft eftir Vilhelm.