Hlutabréf í bresku íþróttavörukeðjunum Sport Direct, JJB Sports og íþróttavöruframleiðandanum Umbro, féllu í kjölfar taps enska landsliðsins í knattspyrnu á móti Króatíu á miðvikudag, samkvæmt frétt MarketWatch.

Sports Direct, sem er að hluta til í eigu Baugs, hefur sent frá sér yfirlýsingu um að tekjur ársins verði minni en áður var reiknað með, vegna minni sölu á íþróttavörum tengdum landsliðinu í kjölfar slæms gengis þess á árinu. Hlutabréf í Sport Direct féllu um 16% en hafa í allt fallið um tvo þriðjunga frá því að félagið var skráð á markað í upphafi árs.

Aðalsamkeppnisaðilinn JJB sport, sem Exista [ EXISTA ] er hluthafi í, hafði ekki tjáð sig um málið en hlutabréf í keðjunni féllu um 8,8% eftir leikinn.

Umbro, sem Sports Direct og JJB fara með yfir fjórðung hlutafjár í, hefur einkaleyfi á framleiðslu keppnistreyja 140 liða og eru treyjur enska landsliðsins þeirra á meðal. Talsmaður þess sagði að slæmt gengi enska landsliðsins í knattspyrnu myndi hafa merkjanleg áhrif á hagnaðinn á þessu ári, en verulega áhrif á næsta ári. Hlutabréf þess féllu þó aðeins um 3% en talið er að hugsanleg yfirtaka Nike á félaginu hafi hindrað frekari lækkun.

Orðrómur hefur verið uppi um að JJB og Sports Direct muni reyna að koma í veg fyrir yfirtökuna á Umbro. Breskur sérfræðingur, sagði í viðtali við MarketWatch að ef yfirtakan yrði hindruð, af einhverri ástæðu, myndu bréf Umbro falla frá 167 niður í 100.

Heimild: Viðskiptablaðið.