Tap Eyris Invest nam 926 milljónum króna eftir skatta á fyrstu sex mánuðum ársins, segir í tilkynningu til Kauphallarinnar.

Hagnaður Eyris var 1.358 milljónir á sama tíma á fyrri helmingi árs 2005.

Niðursveifla á hlutabréfamörkuðum á fyrri hluta ársins hafði áhrif á afkomu félagins. Á síðari hluta ársins hefur viðsnúningur orðið í rekstri Eyris Invest og er félagið reiknað nú í ágætum hagnaði frá ársbyrjun, segir í tilkynningunni.

"Afkoma félagsins á fyrri helmingi ársins er í takt við markaðsaðstæður," segir Árni Oddur Þórðarson, forstjóri Eyris Invest ehf

"Langtímafjárfestingar félagsins, Össur og Marel, hafi áfram verið að auka raunvirði umtalsvert og vaxið í samræmi við stefnu og markmið félaganna. Horfur framundan eru ágætar og markmið félaginsins um 20% árlega meðalarðsemi eiginfjár stendur óbreytt," sagði Árni.

Eyrir Invest ehf. telur framtíðarhorfur góðar. Undirliggjandi verðmæti eignarhluta félagsins er traust og hefur reiknað tap af eignarhlutum í lok fyrra árshelmings gengið að fullu til baka. Eyrir Invest hefur sett sér markmið um 20% árlega meðalarðsemi fyrir árin 2006-2010 til samanburðar við yfir 60% arðsemi að meðaltali á árunum 2000-2005, segir í tilkynningunni.