Tap bandaríska fjárfestingalánasjóðsins Fannie Mae nam um 2,2 milljörðum dala eða því sem nemur tæplega 170 milljörðum íslenskra króna á fyrsta ársfjórðungi þessa árs.

Þetta er þriðji ársfjórðungurinn í röð sem Fannie Mae tapar fé en tapið þennan ársfjórðunginn nemur 2,57 dölum á hvern hlut.

Tap félagins er meira en gert hafði verið ráð fyrir en greiningaraðilar á vegum Bloomberg fréttaveitunnar höfðu gert ráð fyrir tapi upp á 64 sent á hvern hlut.

Hagnaður á sama tíma í fyrra var um 826 milljónir dala eða um 85 sent á hlut.

Í tilkynningu frá félaginu kemur fram til standi að auka hlutafé þess um allt að 6 milljarða dali.

Núverandi fjármálakrísa vestanhafs hefur haft mikil áhrif á starfssemi Fannie Mae og helsta keppinautinn, Freddie Mac. Freddie Mac mun kynna uppgjör sitt í næstu viku og er einnig búist við töluverðu tapi þar á bæ.