Tap af rekstri Fiskeldis Eyjafarðar nam 202 milljónum króna árið 2005, sem er um 49 milljónum verri afkoma en árið áður, segir í tilkynningu til Kauphallar Íslands.

Rekstrartekjur félagsins á árinu 2005 námu samtals 120 milljónum króna en árið áður var veltan 182 milljónir. Vergt tap var 117 milljónir króna en var 32 milljónir árið áður.

Afskriftir voru 30,7 milljónir króna sem er svipað og árið áður. Fjármagnsliðir eru neikvæðir um 4,2 milljónir en voru neikvæðir um 10 milljónir króna á árinu 2004. Áhrif hlutdeildarfélags eru neikvæð um rúmar 33,3 milljónir króna en voru neikvæð um 66,8 milljónir króna í fyrra.

Í árslok námu heildareignir félagsins 399,9 milljónum króna. Fastafjármunir voru samtals 273,7 milljónir króna og veltufjármunir 126,2 milljónir króna. Þá námu heildarskuldir félagsins samtals 195,0 milljónum króna og bókfært eigið fé 204,9 milljónum. Í árslok var veltufjárhlutfallið 3,3 og eiginfjárhlutfall 51,2%.

Hlutafé félagsins var fært niður í júní um 80% og varð eftir niðurfærslu 169,0 milljónir króna. Innborgað nýtt hlutafé á árinu 2005 nam 116,6 milljónum króna og 15 milljónir voru innborgaðar í febrúar á þessu ári. Hlutafé félagsins er nú 300,6 milljón.