Fiskeldi Eyjafjarðar hf var gert upp með 165 milljóna króna tapi árið 2004. Vakin er athygli á að fyrirvari er í áritun endurskoðenda félagsins. Megin ástæðan fyrir slæmri afkomu má rekja til erfiðleika í seiðaframleiðslunni, lækkunar á seiðaverði og slæmrar afkomu í hlutdeildarfélags í Kanada segir í tilkynningu félagsins. Velta félagsins var 185 milljónir samanborið við 277 milljónir árið áður. Vergur hagnaður (EBITDA) var neikvæður um 53 milljón króna og veltufé til rekstrar var 69 milljónir.

Árið áður var EBITDA jákvæð um rúmar 21 milljónir króna og veltufé frá rekstri 20 milljónir. Afskriftir námu samtals 35 milljónum króna, sem er sama fjárhæð og árið áður. Fjármagnsliðir voru neikvæðir um 10 milljónir krónur, samanborið við 730 þúsund árið áður. Tap ársins, án áhrifa hlutdeildarfélagsins, var því 98 milljónir króna, samanborið við 15 milljóna tap árið áður.

Hlutdeild Fiskeldis Eyjafjarðar hf í tapi Scotian Halibut Ltd. á árinu 2004 nam 67 milljónum króna.

Í árslok námu heildareignir félagsins 470 milljónum króna. Fastafjármunir voru samtals 348 milljónir króna og veltufjármunir 122 milljónir. Þá námu heildarskuldir félagsins 200 milljónum króna og bókfært eigið fé 270 milljónum. Í lok tímabilsins var veltufjárhlutfallið 1,65 og eiginfjárhlutfallið 58%.

Erfiðleikarnir í seiðaframleiðslunni á síðasta ári voru í frumfóðrun lirfanna og voru tveir fyrstu klakhópar ársins mun lakari en gert var ráð fyrir. Síðasti klakhópurinn gekk þó mjög vel og skilaði góðum seiðum. Framleiðsla ársins var tæp 400 þúsund seiði, samanborið við 750 þúsund árið áður.

Ljóst er að afkoma Fiskeldis Eyjafjarðar á yfirstandandi ári verður ekki ásættanleg þar sem fyrsti hópur þessa árs hefur gengið mjög illa. Ástæðan eru sú að hrognagæðin eru mun lakari en árin á undan, sem rakið er til hás sjávarhita í Eyjafirði síðastliðið sumar.

Taprekstur síðusta árs og útlit fyrir óásættanlega afkomu á þessu ári gerir það að verkum að félagið þarf að afla sér nýs hlutafjár. Á næsta aðalfundi mun stjórn félagsins leggja til að hlutafé félagsins verði fært niður um 80% og heimild verði veitt til þess að selja nýtt hlutafé fyrir allt að 150 milljónir króna.

Aðalfundur Fiskeldis Eyjafjarðar verður haldinn föstudaginn 15. apríl nk. Stjórn félagsins gerir tillögu til aðalfundar um að ekki verði greiddur arður til hluthafa vegna ársins 2004.