Tap FL group á öðrum ársfjórðungi nemur -334 milljónum króna samanborið við 2,3 milljarða hagnað á sama ársfjórðungi árið á undan. Afkoma eftir skatta á öðrum ársfjórðungi var -118 milljónir króna samanborið við 1.908 milljónir króna hagnað árið áður samkvæmt tilkynningu til Kauphallarinnar.

Hagnaður á fyrstu sex mánuðum ársins nemur 6,3 milljörðum samanborið við 2,3 milljaðra króna hagnað árið á undan. Að teknu tilliti til skatta var hagnaður tímabilsins 5.721 milljónir króna samanborið við 1.933 milljónir króna árið áður. Afkoma af fjárfestingastarfsemi fyrir skatta á fyrstu sex mánuðum ársins var 8.104 milljónir króna samanborið við 2.624 milljónir króna árið áður.

Heildareignir í lok annars ársfjórðungs námu 202,6 milljörðum króna, jukust um 14,5 milljarða króna frá lokum fyrsta ársfjórðungs. Gjaldeyrisjöfnuður félagsins var jákvæður í erlendum myntum sem skilaði verulegum hagnaði. Eigið fé í lok annars ársfjórðungs var 83,4 milljarðar króna.

Eiginfjárhlutfall í lok annars ársfjórðungs var 44% að teknu tilliti til fjármögnunar á fyrirframgreiðslum vegna kaupa á 15 Boeing 737 800 flugvélum. Handbært fé í lok annars ársfjórðungs nam 20,9 milljörðum króna

Á fyrri helmingi ársins 2006 var EBITDA hagnaður hjá Icelandair Group 1.299 milljónir og jókst um 511 milljónir króna samanborið við árið áður. Á öðrum ársfjórðungi var EBITDA hagnaður 1.564 milljónir króna
Afkoma Icelandair Group fyrir skatta var 883 milljónir króna á fyrri helmingi ársins og 1.560 milljónir króna á öðrum ársfjórðungi sem er veruleg bæting frá fyrra ári. Handbært fé frá rekstri hjá Icelandair Group á fyrri helmingi ársins nam 3.857 milljónum króna

Á fyrri helmingi ársins 2006 nam EBITDA hagnaður Sterling -2.178 milljónir króna. Á öðrum ársfjórðungi var EBITDA 485 milljónir króna. Afkoma Sterling fyrir skatta var -2.534 milljónir króna á fyrri helmingi ársins og 320 milljónir króna á öðrum ársfjórðungi

FL Group keypti á fjórðungnum 49% hlut í Refresco Holding en áhrif kaupanna eru ekki komin fram í rekstrarreikning félagsins. Einnig seldi FL Group 16,9% hlut sinn í easyJet á öðrum ársfjórðung og innleysti hagnað úr stöðutökum þar með talið Marks & Spencer. Á tímabilinu fjárfesti FL Group í Glitni og nemur eignarhlutur FL Group í Glitni nú 24,4%

Þá jók FL Group hlutafé um 33,4 milljarða króna vegna kaupa á 24,2% hlut í Straumi-Burðarás. Áætlað eigið fé eftir hlutafjárhækkunina, byggt á eigin fé í lok júní, er 118,8 milljarðar króna, sem gefur 52,8% eiginfjárhlutfall að teknu tilliti til fjármögnunar á fyrirframgreiðslum vegna kaupa á 15 Boeing 737 800 flugvélum

Hannes Smárason forstjóri FL Group segir um uppgjörið:

?Ég er ánægður með að geta kynnt góða afkomu á fyrri helmingi ársins og þá sérstaklega í ljósi þess að á öðrum ársfjórðungi var afar mikill óróleiki á fjármálamörkuðum sem lækkuðu almennt á bilinu 5-10% á tímabilinu. Með það í huga ber góð afkoma okkar vott um góða dreifingu, virka stýringu á eignasafni og gjaldeyrisjöfnuði.