EBITDA framlegð Flögu Group var neikvæð um USD 480 þúsund á fyrsta ársfjórðungi en var neikvæð um USD 577 þúsund á fyrsta ársfjórðungi 2004. Tap eftir skatta nam 70 milljónum króna eða 1,1 milljón bandaríkjadala (USD) samanborið við tap að upphæð USD 538 þúsund á fyrsta ársfjórðungi 2004. Á ársfjórðungnum var gjaldfærður kostnaður við skipulagsbreytingar og uppsagnir vegna hagræðingaraðgerða hjá rannsókna- og þróunarsviði og Evrópudeild Medcare ásamt gjaldfærslu vegna starfslokasamninga stjórnenda.

Tekjur á fyrsta ársfjórðungi námu USD 8,2 milljónum, sem er 88% aukning frá sama tímabili ársins 2004. Hafa ber í huga að SleepTech telst með í samstæðuuppgjörinu frá og með júnímánuði 2004 og eru tölur fyrra árs því ekki að fullu samanburðarhæfar.

Framlegð rekstrartekna var 61%, samanborið við 59% árið á undan. Rannsókna- og þróunarkostnaður er allur gjaldfærður og nam USD 1,2 milljónum eða 14,3% af tekjum á fyrsta ársfjórðungi 2005, samanborið við USD 850 þúsund eða 19% af tekjum fyrsta ársfjórðungs 2004. Stjórnunarkostnaður er nú færður í auknum mæli á kostnaðarverð seldra vara og þróunarkostnað og hefur framsetningu á tölum fyrra árs verið breytt til samræmis segir í tilkynningu félagsins.