Frjáls fjölmiðlun ehf., fyrrverandi eigandi og útgefandi DV og tengdra miðla, tapaði rúmlega 317 milljónum króna á síðasta ári. Tapið jókst um 77 milljónir króna milli rekstrarára. Þetta kemur fram í ársreikningi félagsins fyrir árið 2019.

Samkvæmt ársreikningnum drógust tekjur saman um 20 milljónir króna, námu 359 milljónum króna, en gjöld drógust að sama skapi saman á móti. Rekstrartap fyrir afskriftir og fjármagnsliði (EBIDTA) nam rúmlega 128 milljónum króna en hafði verið 214 milljónir króna árið á undan. 151 milljóna króna virðisrýrnun óefnislegra eigna þýddi hins vegar að tap frá rekstri nam 307 milljónum króna.

Hlutafé félagsins var hækkað á liðnu ári um 120 milljónir króna en hafði verið hækkað um 190 milljónir króna árið á undan. Þá tók félagið 55 milljón króna lán á síðasta ári. Ójafnað tap félagsins nam 601 milljón króna og var eigið fé þess neikvætt um tæplega 261 milljón króna. Eignir félagsins nema 396 milljónum króna en skuldirnar eru 657 milljónir króna.

Stærstur hluti eigna félagsins eru óefnislegar eignir en þær voru færðar niður um 151 milljónir króna. Útgáfuréttindi félagsins höfðu verið metin á 476 milljónir króna í upphafi árs 2019 en voru færð til eignar á 281 milljón króna.

Sjá einnig: Björgólfur fjármagnaði kaupin á DV

Á síðasta ári tók Torg ehf., útgefandi Fréttablaðsins og Hringbrautar, yfir fjölmiðla Frjálsrar fjölmiðlunar. Afhending eigna átti sér stað 1. apríl á þessu ári. Í samrunaskrá vegna þessa kom fram að Björgólfur Thor Björgólfsson hefði verið lánveitandi Dalsdals ehf. eiganda Frjálsrar fjölmiðlunar en síðarnefnda félagið tók yfir rekstur fjölmiðla sem áður höfðu verið í eigu Pressunnar.

„Áhrifa faraldurs vegna COVID-19 veirunnar fór að gæta í rekstrarumhverfi félagsins í mars 2020. Mikil og almenn óvissa ríkir um áhrif faraldursins á efnahagslíf og fjármálamarkaði hérlendis og erlendis. Ekki er mögulegt að leggja mat á áhrif faraldursins á starfsemi félagsins til lengri tíma en að mati stjórnar og framkvæmdastjóra hafa ekki komið fram vísbendingar við undirritun ársreikningsins þess efnis að vafi kunni að leika á rekstrarhæfi félagsins,“ segir í skýrslu stjórnar.

Í yfirlýsingu endurskoðenda segir að aðstoð við gerð ársreiknings hafi ekki verið staðfestingarverkefni og veita þeir því ekki álit byggt á endurskoðun né könnun á ársreikningnum.