Tap sjóðstýringarfélagsins Gamma Capital Management á síðasta ári nam 316 milljónum króna, sem er um 18% aukning frá árinu 2018 þegar tapið var 268 milljónir króna, að því er Fréttablaðið hefur upp úr ársreikningi Kviku banka sem sameinaðist Gamma í fyrra.

Eins og fjallað hefur verið ítarlega um í Viðskiptablaðinu kemur tapið mikið til vegna endurmats á fjárhag tveggja fasteignasjóða í rekstri félagsins. Í gær bárust svo þær fréttir að fyrrum framkvæmdastjóri Upphafs sem Novus hafði fjárfest í hefði fengið tæplega 60 milljóna króna greiðslu frá byggingarverktaka sem vann fyrir félagið.

Í fyrra námu heildartekjur Gamma 763 milljónum króna, sem er nálega helmingun frá árinu 2018 þegar þær námu 1.418 milljónum króna. Nam lækkun umsýslu- og árangurstengdra þóknana hjá félaginu 56 prósentum milli ára.

Rekstrargjöldin drógust hins vegar saman um 12%, fóru úr 1.009 milljónum króna í 888 milljónir króna, en þar af lækkuðu laun og launatengd gjöld um þriðjung, meðan annar rekstrarkostnaður jókst um 32%. Samanlagðar eignir Gamma námu 2,9 milljörðum króna í lok síðasta árs, sem er lækkun um 24% frá 3,8 milljörðum króna í ársbyrjun.

Hér má lesa frekari fréttir um málefni fjárfestingarsjóða Gamma, það er Anglia, Novus og Upphafs: