*

mánudagur, 2. ágúst 2021
Innlent 23. nóvember 2004 17:55

Tap HB Granda nam 29 milljónum

Ritstjórn

Rekstrartekjur fyrirtækisins á tímabilinu námu 6.695 milljónum króna samanborið við 7.419 milljónir króna tekjur hjá forverunum tveimur, Granda hf. og Haraldi Böðvarssyni hf, á sama tíma á síðasta ári, sem er 9,8% samdráttur tekna. Rekstrarhagnaður fyrir afskriftir á rekstrartímabilinu var 1.347 milljónir króna eða 20,1% af rekstrartekjum. Tap HB Granda hf. á fyrstu 9 mánuðum ársins 2004 nam 29 milljónum króna, en á sama tímabili árið 2003 nam hagnaður Granda hf. og Haraldar Böðvarssonar hf. samtals 818 milljónum króna. Veltufé frá rekstri nam 1.031 milljón króna sem er um 15,4% af rekstrartekjum. Eiginfjárhlutfall HB Granda hf. í lok tímabilsins er 29,8%.

Hátt gengi íslensku krónunnar, minni afli, lág afurðaverð í landvinnslu og hækkandi olíuverð hefur m.a. haft óhagstæð áhrif á rekstur félagsins. Afurðaverð hafa þokast upp á við undanfarna mánuði og er þess vænst að sú þróun muni halda áfram á næstunni. Búast má við kostnaðarhækkunum vegna nýgerðra kjarasamninga við sjómenn. HB Grandi hf. hefur fest kaup á uppsjávarfrystiskipi til að auka verðmæti uppsjávarfisks. Skipið verður afhent i þessari viku í Las Palmas.

Stjórn fyrirtækisins hefur einnig samþykkt samruna við sjávarútvegsfyrirtækin Tanga hf. og Svan RE 45 ehf. sem ganga inn í HB Granda hf. Við samrunann eykst vægi uppsjávarfisks í rekstri félagsins. Samruninn kallar á hagræðingu bæði í veiðum og vinnslu á uppsjávarfiski. Samruninn tekur gildi frá og með 1. okt. 2004.

Rekstrarhagnaður af eigin starfsemi fyrstu 9 mánuði ársins var 254 milljónir króna samanborið við 565 milljónir króna rekstrarhagnað forveranna tveggja á sama tíma árið áður. Liðurinn fjáreignatekjur að frádregnum fjármagnsgjöldum var neikvæður um 142 milljónir króna, en á sama tíma í fyrra var hann jákvæður um 368 milljónir króna samanlagt fyrir Granda hf. og Harald Böðvarsson hf. Gengismunur var jákvæður um 104 milljónir króna og vaxtagjöld voru um 337 milljónir króna á fyrstu 9 mánuðum ársins 2004, en samsvarandi tölur fyrir sama tímabil árið 2003 voru 23 milljóna króna jákvæður gengismunur og 207 milljóna króna vaxtagjöld. Áhrif dóttur- og hlutdeildarfélaga voru neikvæð um 88 milljónir króna og munar þar mest um samtals 97 milljóna króna tap á dótturfélögunum Baltic Seafood SIA í Lettlandi og Salar Islandica ehf. í Berufirði. Hagnaður fyrir frádrátt skatta nam 25 milljónum króna. Reiknaðir skattar voru 54 milljónir króna.