Rekstrarreikningur Hitaveitu Rangæinga sýndi tap upp á 21,4 milljónir króna á fyrstu 6 mánuðum ársins 2006 samanborið við 17 milljón króna tap á sama tímabili árið áður, segir í tilkynningu til Kauphallar Íslands.

Rekstrartekjur Hitaveitu Rangæinga á tímabilinu námu 53,0 milljónum króna en voru 41,0 milljónir árið áður.

Hagnaður fyrirtækisins fyrir afskriftir og fjármagnsliði, EBITDA, var 32,3 milljónir króna samanborið við 15,8 milljónir króna á sama tímabili 2005.

Með nýjum lögum nr. 50/2005 um skattskyldu orkufyrirtækja verður fyrirtækið skattskylt í samræmi við 2. gr. laga nr. 90/2003 um tekjuskatt. Lögin koma til framkvæmda við álagningu tekjuskatts á árinu 2007 vegna tekna á árinu 2006. Hafin er vinna við að reikna út hver sú fjárhæð verður en þar sem niðurstaða er ekki komin í það mál hafa ekki verið færðir neinir reiknaðir skattar í árshlutareikninginn nú, segir í tilkynningunni.