*

miðvikudagur, 23. september 2020
Innlent 8. ágúst 2020 13:09

Tap hjá Bláfugli

Frakflugfélagið tapaði 141 milljón króna en arðgreiðsla félagsins mun nema allt að 129 milljónum króna á árinu.

Ritstjórn
Steinn Logi Björnsson er framkvæmdastjóri og stjórnarmaður Bláfugls.
Birgir Ísl. Gunnarsson

Fraktflugfélagið Bláfugl ehf. tapaði ríflega milljón dollurum árið 2019, andvirði 141 milljónar króna og var arðsemi eiginfjár -12%. Félagið hagnaðist um 1,6 milljónir dollara árið áður, andvirði 221 milljón króna.

Rekstrartekjur félagsins námu rúmlega 38 milljónum dollara, tæplega 5,2 milljörðum króna, þar af voru tekjur sökum flugvélaleigu um 31,6 milljónir dollara. Rekstrartekjur drógust því saman um rúmlega sex milljón dollara en þær námu tæplega 45 milljónum dollara árið 2018.

Heildareignir félagsins nema rúmlega 12 milljónum dollara, um 1,6 milljarða króna. Skuldir félagsins nema fjórum milljónum dollara, þar af eru 3,6 vegna skammtímaskulda. Eigið fé félagsins nemur 8 milljónum dollara og er eiginfjárhlutfall Bláfugls því 66,5%.

Arðgreiðsla félagsins árið 2020 mun nema allt að 954 þúsund dollurum, andvirði um 129 milljóna króna. Steinn Logi Björnsson var framkvæmdastjóri Bláfugls út apríl síðastliðinn. Eini hluthafi Bláfugls var BB holding ehf þar til litháenska félagið Avia Solutions Group keypti Bláfugl fyrr á þessu ári.