Eignarhaldsfélagið Miklatorg, móðurfélag Ikea á Íslandi tapaði 249 milljónum króna á rekstrarárinu frá september 2011 til ágúst 2012 samkvæmt ársreikningi félagsins. Dótturfélagið Miklatorg ehf., sem fer með rekstur Ikea, var hins vegar rekið með 235 milljóna króna hagnaði. Tap Eignarhaldsfélagsins Miklatorgs má að stórum hluta rekja til tapreksturs tveggja annarra dótturfélaga.

Annars vegar er um að ræða Fasteignafélagið Sýslu sem tapaði 202 milljónum og hins vegar hollenska félagið FE Corporation BV sem á tvö önnur litháísk félög en tapreksturinn þar nam um 217 milljónum. Litháísku félögin voru stofnuð um rekstur Ikea þar í landi en verslun Ikea í Vilníus opnaði í ágúst síðastliðinn.