Heildartap Símans á fyrstu sex mánuðum ársins nam alls 6.407 milljónum króna en um 8.280 milljón króna gengistap varð hjá félaginu. EBIDTA fyrirtækisins jókst hins vegar um liðlega 400 milljónir króna á milli ára og var á fyrri hluta ársins 3.969 milljónir króna, að því er fram kémur í tilkynningu frá Símanum.

Sala Símans á fyrri helmingi ársins var 11.754 m.kr samanborið við 10.064 m.kr árið áður sem er 16,8% aukning. Framlegð eykst úr 4.800 m.kr í 5.525 m.kr eða um 15,1%.

Afkoma Símans eftir skatta á fyrri árshelmingi var neikvæð um 6.407 m.kr. Hluti skulda Símans er í erlendri mynt en gengistap nam 8.280 m.kr á tímabilinu. Gengisvísitalan var tæplega 105 stig í upphafi ársins en var komin í 134,2 stig við lok uppgjörstímabils. Í dag er gengisvísitalan um 124 stig.

Rekstrarhagnaður samstæðunnar fyrir afskriftir (EBITDA) var 3.969 m.kr miðað við 3.540 m.kr fyrir sama tímabil í fyrra. Það er aukning um 12,1% eða sem nemur 429 m.kr. Afskriftir félagsins námu 2.003 m.kr fyrstu sex mánuði ársins.

Rekstrarhagnaður fyrir fjármagnsliði og skatta (EBIT) nam 1.966 m.kr en var 1.635 m.kr fyrir sama tímabil í fyrra og hefur því hækkað um 331 m.kr eða 20%.

Handbært fé frá rekstri án vaxta og skatta var 4.262 m.kr sem er tæp 11% hækkun frá sama tímabili í fyrra en þá var handbært fé frá rekstri 3.846 m.kr.

Fjárfestingar samstæðunnar í varanlegum rekstrarfjármunum (CAPEX) námu 894 m.kr á tímabilinu en námu 1.760 m.kr á sama tíma í fyrra.

Samkvæmt efnahagsreikningi voru heildareignir samstæðunnar 84.827 m.kr. Eigið fé félagsins nam 26.250 m.kr í lok júní 2006. Eiginfjárhlutfall er því 30,9%.

Fjögur dótturfélög eru innifalin í samstæðureikningi Símans: Anza hf., Upplýsingaveitur ehf., Skíma ehf. og Tæknivörur ehf.

? Rekstur Símans hefur gengið vel enda er rekstrarhagnaður Símans á fyrri helmingi ársins um 2 milljarðar, salan hefur aukist um 17% og veltufé frá rekstri er gott sem er jákvætt. Aftur á móti hefur óhagstæð gengisbreyting krónunnar á árinu haft töluverð áhrif á efnahag Símans eins og hjá mörgum öðrum fyrirtækjum," segir Brynjólfur Bjarnason, forstjóri Símans.

Hlutdeild Símans á fjarskiptamarkaði er góð og tekjur af fjarskiptastarfsemi fara vaxandi. Síminn fjölgaði á síðasta ári tekjustraumum sínum og hefur á árinu fest sig í sessi sem dreifingarfyrirtæki fyrir sjónvarpsþjónustu. Útrás Símans er hafin og töluverð vinna hefur þegar átt sér stað á erlendri grundu þar sem nýrra vaxtartækifæri eru nú könnuð. Áherslur á næstunni munu einkennast m.a. af aukinni samþættingu fjarskipta-og upplýsingatækni.