20 milljóna kr. tap varð af rekstri Smáragarðs ehf á fyrri helmingi ársins. Á tímabilinu sameinaðist félagið fasteignafélaginu Bíldshöfða ehf. sem var í eigu sömu aðila. Rekstrarleg aðlögun vegna sameiningar fasteignafélaganna hefur einkennt reksturinn fyrstu mánuði ársins sem skýrir að stórum hluta niðurstöðu rekstrar sem er nú neikvæð um tæpar 20 m.kr. á móti 11 m.kr.hagnaði fyrstu sex mánuði ársins 2003. Félagið hefur að undanförnu endurfjármagnað hluta af skammtímalánum sem má ætla að skili sér í lægri fjármagnskostnaði í framtíðinni segir í tilkynningu þess til Kauphallarinar.

Heildareignir félagsins hafa meira en tvöfaldast milli ára og sem fyrr segir er nú unnið að því að efla tekjumyndum nýrra fasteigna og eru langtímaleigusamningar í gildi um flestar eignir í eigu félagsins.

Smáragarður ehf. er fasteignafélag í eigu Norvikur hf. Aðaltilgangur félagsins er kaup og sala fasteigna auk reksturs þeirra og útleigu. Á liðnu ári urðu verulegar breytingar á umfangi félagsins er fasteignafélagið Bíldshöfði ehf. var sameinaður inn í Smáragarð.

"Á undanförnum mánuðum hefur rekstur félagsins verið aðlagaður að breyttum rekstrarskilyrðum sem sameining félaganna óhjákvæmilega hafði í för með sér. Á fyrstu mánuðum ársins hefur félagið tekist á við nokkur stór verkefni og ber þar fyrst að nefna byggingu verslunarhúsnæðis á Selfossi auk annarra verkefna.

Mörg verkefni eru nýhafin og tekjumyndum þeirra enn sem komið er hverfandi en búast má við töluverðum umskiptum þar að lútandi. Félagið mun á næstu mánuðum halda áfram þeirri uppbyggingu sem einkennt hefur starfssemina undanfarna mánuði og hefur félagið nú þegar samið um stór verkefni sem munu hefjast á næstu mánuðum og misserum og mun styrkja starfssemi félagsins til lengri tíma," segir í tilkynningu félagsins.