HS Orka tapaði rúmum 1,4 milljörðum króna á fyrri hluta ársins. Þetta er rúmlega tvöfalt meira tap en á fyrri hluta síðasta árs en þá nam það rúmum 660 milljónum króna. Þar af nam tapið rúmum 504,6 milljónum króna á öðrum ársfjórðungi nú samanborið við 652 milljóna króna tap í fyrra.

Fram kemur í árshlutareikningi HS Orku sem samþykktur var á fundi stjórnar fyrirtækisins í dag að tekjur námu 3.590 á fyrstu sex mánuðum ársins. Til samanburðar námu þær tæpum 3.466 milljónum króna. Aukningin nemur 3,6% á milli ára. Á móti nam rekstrarkostnaður 426 milljónum króna sem er 14% hækkun á milli ára. Þar vóg þungt kostnaður við gerðardómsmál vegna orkusölusamnings við Norðurál á Grundartanga.

Fram kemur í uppgjörinu að reiknaðir fjármagnsliðir hafa afgerandi áhrif á afkomu tímabilsins sem er neikvæð um 1.480 milliónir. Þar vegur þyngst  lækkun afleiðna (framtíðarvirði orkusölusamninga sem tengjast álverði) um 3.950 milljónir króna.