*

föstudagur, 18. júní 2021
Innlent 11. apríl 2019 07:30

Bygging hótels frestast vegna Wow

KEA skilaði tapi í fyrsta sinn í áratug í fyrra. Wow air er kennt um að ekki hafi tekist að ljúka fjármögnun nýs hótels á Akureyri.

Ritstjórn
Fall WOW tefur framkvæmdir við hótel félagsins á Akureyri en þær hafa tafist frá 2015.
Aðsend mynd

KEA svf. tapaði tæpum 128 milljónum króna á síðasta rekstrarári. Fram til ársins í fyrra hafði félagið skilað hagnaði níu ár í röð en hagnaður ársins 2017 nam 656 milljónum.

Hreinar fjárfestingartekjur námu 73 milljónum og lækkuðu um 785 milljónir. Eigið fé í árslok nam 7,8 milljörðum, heildar eignir hálfum milljarði betur og eiginfjárhlutfall er um 94 prósent.

Í skýrslu stjórnar er þess getið að áform um hótelbyggingu á Hafnarstræti 80 á Akureyri hafi enn dregist. Nú hafi allt verið klappað og klárt fyrir framkvæmdir en hvorki brúar- né langtímafjármögnun hafi fengist eftir að vandræði WOW air gerðu vart við sig. Gert er ráð fyrir að fall félagsins muni hafa „tímabundið töluverð áhrif á framgang mála“.

KEA á hlut í 39 félögum sem sinna ýmiskonar starfsemi. Meðal annars á það tæplega 44 prósenta hlut í Jarðböðunum á Mývatni en félagið jók við hlut sinn um rúm þrjú prósent á síðara rekstrarári. Hluturinn er metinn á rúma tvo milljarða í bókum KEA.

„Afkoma fyrirtækja sem KEA á eignarhluti í versnaði að jafnaði frá fyrra ári og endurspeglast það í um 91 milljóna króna neikvæðri gangvirðisbreytingu fjáreigna og var ávöxtun þess eignaflokks því óásættanleg. Þar skiptir mestu almennt versnandi ytri skilyrði, hækkað kostnaðarstig og verri samkeppnishæfni,“ segir í frétt á vef KEA.

Þá er athyglivert að verðmæti ríflega 5% hlutar félagsins í Samkaupum ehf. hækkar um fjórðung milli ára. Miðað við hlut KEA í Samkaupum má áætla að markaðsvirði Samkaupa hafi aukist úr 5,1 milljarði króna í 6,5 milljarða króna. Má það vafalaust rekja til kaupa Samkaupa á ellefu verslunum Basko sem reknar eru undir merkjum 10-11 og Iceland.

Félagið metur eignir sínar til gangvirðis í samræmi við alþjóðlega reikningsskilastaða en það þýðir að afkoma félagsins ræðst af breytingu á verðmæti eignarhluta félagsins í fyrirtækjum en ekki af hlutdeild í afkomu þeirra.

Stikkorð: KEA WOW hótel uppgjör