Tveggja milljóna Bandaríkjadala tap - 249 milljónir íslenskra króna - varð af rekstri Rio Tinto Alcan á Íslandi, eða ISAL, á árinu sem leið. Erfiðleikar í kjaraviðræðum og truflanir vegna straumhækkana ollu þá rekstrartruflunum, sem höfðu áhrif á framleiðni, auk þess sem markaðsaðstæður voru fyrirtækinu sérstaklega erfiðar á árinu sem leið.

Þetta kemur fram í nýútkomnu Grænu Bókhaldi fyrirtækisins. Rannveig Rist, forstjóri ISAL, snertir þá á rekstri fyrirtækisins í inngangsorðum skýrslunnar. Þar segir að söluverð afurða félagsins hafi lækkað um heil 28% frá ársbyrjun til ársloka á síðasta ári. Þetta auk þess sem framleiðsla dróst saman leiddi til þess að sölutekjur lækkuðu um tæp 10% milli ára.

Erfiðleikar í kjaraviðræðum settu þá einnig mark sitt á rekstur félagsins, segir Rannveig í inngangsorðum sínum. Framleiðsla dróst þá meðal annars saman vegna þess að starfsmenn gripu til yfirvinnubanns, í sambandi við kjaraviðræðurnar fyrrnefndu. Þær snerust að hennar sögn einna helst um möguleika á því að bjóða út afmarkaða þætti rekstursins til verktaka við tilteknar aðstæður.