*

laugardagur, 18. september 2021
Innlent 12. júlí 2021 08:23

Tap jókst hjá Ferðaskrifstofu Íslands

Velta Ferðaskrifstofu Íslands nam um 600 milljónum króna á síðasta ári og lækkaði hún um 82% á milli ára.

Ritstjórn
Þórunn Reynisdóttir er forstjóri Ferðaskrifstofu Íslands.
Aðsend mynd

Ferðaskrifstofa Íslands, sem á og rekur Úrval Útsýn, Sumarferðir og Plúsferðir, tapaði um 236 milljónum króna á síðasta ári, samanborið við 64 milljóna tap árið áður. Velta félagsins dróst saman um 82% og nam um 600 milljónum króna. Rekstrartap (EBIT) nam 67 milljónum króna samanborið við 27 milljónir árið áður.

Á árinu voru greidd laun um 91 milljón króna, samanborið við 232 milljónir árið áður, en meðalfjöldi ársverka lækkaði úr 33 í 17 frá fyrra ári.

Eignir félagsins námu 894 milljónum í lok árs og drógust saman um 23% milli ára, eigið fé nam 323 milljónum og lækkaði um 73% og skuldir námu 571 milljón og lækkuðu þær um 6%. Eiginfjárhlutfall félagsins var því 36,1% um síðustu áramót, samanborið við 48% ári fyrr.

Í skýrslu stjórnar kemur fram að í desember síðastliðnum hafi félagið undirritað samning um kaup á öllum rekstri Heimsferða en kaupin eru háð samþykki Samkeppniseftirlitsins. Þegar ársreikningnum var skilað hafði embættið ekki lokið yfirferð sinni um innihald samningsins.

Þá kemur fram að fyrir tilstilli aðgerða félagsins og úrræði stjórnvalda vegna farsóttarinnar telji stjórn og stjórnendur að félagið muni verða rekstrarhæft í fyrirsjáanlegri framtíð.

Þórunn Reynisdóttir er forstjóri félagsins.