Klíníkin Ármúla tapaði 36 milljónum króna á árinu 2019, samanborið við 50 milljóna króna tap árið áður. Velta félagsins nam 844 milljónum króna og jókst um 57,6% frá fyrra ári. Rekstrargjöld námu 873 milljónum og jukust um 51,6% frá fyrra ári. Rekstrartap nam því 29 milljónum króna, samanborið við 40 milljónir árið áður.

Launakostnaður nam 114 milljónum króna, samanborið við 73 milljónir árið áður, en meðalfjöldi starfsmanna yfir árið jókst úr 6,5 ársverkum í 8,75.

Eignir félagsins jukust um 20% milli ára og námu 192 milljónum króna í árslok. Skuldir jukust um 10% í 199 milljónir og var eigið fé neikvætt um rúmar 7 milljónir, samanborið við neikvæðar 21,5 milljónir árið áður. Eiginfjárhlutfall félagsins var því neikvætt um 3,8 prósent, samanborið við neikvæð 13,5 prósent árið áður.

Í skýringum með ársreikningi Klínkurinnar kemur fram að áhrif kórónuveirufaraldursins á rekstur ársins 2020 verði töluverð, meðal annars vegna lokunar á skurðstofum. Félagið hafi brugðist við aðstæðum með því að gera áætlanir sem miðuðu að því að koma félaginu í gegnum veltusamdrátt upp á allt að 85 milljónir í mars og apríl, en í maí átti starfsemin að vera komin að mestu í eðlilegt horf. Líkt og kunnugt er tók faraldurinn sig þó upp aftur í haust með þeim afleiðingum að valkvæðar aðgerðir voru stöðvaðar á ný um tíma.

Stjórn félagsins mat tekjuhorfur þó mjög góðar eftir að unnt yrði að hefja starfsemi að nýju, þar sem biðlistar eftir aðgerðum höfðu lengst verulega eftir fyrrnefnda stöðvun aðgerða. Einnig kemur fram að félagið hafi fengið frest á greiðslum lána með gjalddaga á tímabilinu 1. apríl til 1. september og að tengdir aðilar myndu ekki krefjast uppgjörs á kröfum sínum á rekstrarárinu.

Þá kemur fram að tap af rekstri félagsins hefur verið fjármagnað með hlutafjáraukningu, en stjórn og stjórnendur Klíníkarinnar töldu félagið verða rekstrarhæft um fyrirsjáanlega framtíð með aðgerðum ríkisstjórnar auk hagræðingaraðgerða.

Hluthafar Klíníkarinnar voru 33 á árinu, en þeir stærstu eru Pegá ehf., Ment2Move ehf., Eva Consortium hf. og Blunda ehf., með ríflega helmingshlut samanlagt.