*

fimmtudagur, 2. desember 2021
Innlent 4. ágúst 2011 07:00

Tap kröfuhafa 7400 milljarðar

Kröfur erlendra lánastofnana á Íslandi hafa að meðaltali verið færðar niður um tæplega 85% frá því sem þær voru stuttu fyrir ­bankahrun.

Ritstjórn
Með setningu neyðarlaga á Íslandi þann 6. október 2008 voru skuldabréf gerð að annars flokks kröfum. Við það jókst tap erlendra kröfuhafa gríðarlega.
Birgir Ísl. Gunnarsson

Kröfur erlendra lánastofnana á íslenska banka og önnur fyrirtæki hafa minnkað um 7.378 milljarða króna frá hruni íslenska bankakerfisins í október 2008. Einungis 15,5% krafna þeirra á íslensk fyrirtæki eru enn í bókum þeirra. Það þýðir að erlendu lánastofnanirnar reikna með því að hafa tapað 84,5% af öllum kröfum sínum á Ísland.

Þetta kemur fram í nýjum tölum Alþjóðagreiðslubankans (BIS) sem sýna erlendar kröfur á íslenska banka og fyrirtæki í lok mars síðastliðins. Tölurnar voru gerðar opinberar í júlí.

Að langmestu leyti afskriftir

Í lok júní 2008, þremur mánuðum fyrir bankahrun, skulduðu íslenskir aðilar erlendum lánadrottnum sínum 8.735 milljarða króna miðað við gengi dagsins í dag. Í lok mars 2011 var sú upphæð komin niður í 1.357 milljarða króna í skýrslu BIS.

Þessar tölur byggja á ætluðum endurheimtum erlendu lánastofnananna. Þær hafa allar lýst fullum kröfum í bú þeirra banka og fyrirtækja sem eru fallin og hafa haldið þeim að fullu við í þeim fjárhagslegu endurskipulagningum sem þeir hafa tekið þátt í hérlendis síðan í hruninu. Tölurnar sýna því að erlendar lánastofnanir hafa framkvæmt gríðarlega háar varúðarniðurfærslur vegna lána hingað til lands í bókum sínum.

Gera má ráð fyrir því að sum lánanna hafi verið gerð upp en samkvæmt upplýsingum Viðskiptablaðsins má samdráttinn þó að langmestu leyti rekja til afskrifta á lánum sem erlendar fjármálastofnanir hafa veitt til Íslands.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið hér að ofan undir liðnum Tölublöð.