Tap Landsnets hf. samkvæmt rekstrarreikningi nam 133 milljónum króna fyrir fyrstu sex mánuði ársins 2011 samanborið við hagnað að fjárhæð 1.034 milljónir króna fyrir sama tímabil árið 2010.

Rekstrarhagnaður fyrir fjármagnsliði og afskriftir (EBITDA) nam 4.358 milljónir króna samanborið 4.645 milljónir króna á sama tímabili fyrra árs og lækkar því um 287 milljónir króna á milli ára. Verri afkoma á fyrri helmingi ársins 2011 í samanburði við fyrri helming fyrra árs stafar að mestu af breytingum í fjármagnsliðum og felst aðallega í hærri verðbólgu á fyrstu sex mánuðum ársins 2011 og meira gengistapi miðað við sama tímabil árið áður.

Hrein fjármagnsgjöld nema samtals 3.292 milljónum króna á tímabilinu á móti 2.185 milljónum króna á sama tímabili ársins 2010. Hrein fjármagnsgjöld hækka því um 1.107 milljónir króna á tímabilinu janúar-júní 2011 í samanburði við sama tímabil 2010.

Eiginfjárhlutfall í lok júní var 16,1% samanborið við 16,5% í lok ársins 2010. Eigið fé í lok tímabilsins nam 11.489 milljónum króna samanborið við 11.622 milljónir króna í lok árs 2010. Heildareignir félagsins í lok júní námu 71.404 milljónum króna samanborið við 70.513 milljóir króna í lok árs 2010. Heildarskuldir námu 59.914 milljónum króna samanborið við 58.891 milljónir króna í lok árs 2010.

Í lok júní nam handbært fé 6.542 milljónum króna. Handbært fé frá rekstri fyrstu sex mánuði ársins nam 2.453 milljónum króna samanborið við 3.048 milljónir króna á sama tímabili árið 2010.