Á fyrstu sex mánuðum ársins 2006 nam tap af rekstri Landsvirkjunar 6.490 milljónum króna samkvæmt tilkynningu til Kauphallarinnar. Rekstrarhagnaður fyrir fjármagnsliði og skatta (EBIT) var 4.654 milljónir króna og handbært fé frá rekstri nam 5.588 milljónum króna. Árshlutareikningur Landsvirkjunar byggir á kostnaðarverðsreikningsskilum og er gerður eftir sömu reikningsskilaaðferðum og árið áður

Í tilkynningu segir að helstu nýframkvæmdir á fyrstu sex mánuðum ársins tengdust Kárahnjúkavirkjun. Í lok júní námu heildareignir fyrirtækisins 219,4 milljörðum króna og eiginfjárhlutfall var 23,3%.

Landsvirkjun hefur verið undanþegin tekjuskatti en í samræmi við lög nr. 50 frá árinu 2005 varð fyrirtækið tekjuskattsskylt frá og með 1. janúar 2006. Áhrifin vegna breytingar á skattskyldu fyrirtækisins eru færð í gegnum rekstrarreikning.

Í árshlutareikningnum er reiknuð skattinneign metin 16,1 milljarður króna. Stór hluti langtímaskulda fyrirtækisins er í erlendri mynt en gengistap tímabilsins vegna langtímalána í erlendri mynt nam 24,9 milljörðum króna. Gengisvísitalan var 104,9 í lok síðasta árs en var 134,2 í lok júní segir í tilkynningu.