Hrein afkoma kanadíska orkufyrirtækisins Magma Energy Corp, sem er langstærsti hluthafi HS Orku, var neikvæð um rúma 9,1 milljón dala á lokafjórðungi síðasta árs og þegar litið er til ársins í heild tapaði félagið rúmum 16,4 milljónum dala. Á lokafjórðungi ársins 2009 tapaði Magma rúmum 5,2 milljónum dala og hefur tapið því aukist á milli ára. EBITDA, hagnaður fyrir skatta og fjármagnsliði, var þó jákvæð á lokafjórðungi síðasta árs, sem nemur 6,2 milljónum dala. Þetta kemur fram í markaðstilkynningu Magma.

Þar segir jafnframt að nettó framleiðsla á lokafjórðungi síðasta árs hafi verið 351.461 MWh sem er gríðarleg aukning á milli ára en árið 2009 var hún 12.240 MWh. Sömuleiðis jukust tekjur umtalsvart, voru tæplega 18,8 milljónir dala nú en 1,4 milljónir fyrir ári. Þá segir í tilkynningunni að helstu atburðir síðasta árs í rekstri fyrirtækisins hafi verið kaupin á HS Orku auk stækkunar orkuvers fyrirtækisins í Soda Lake.

Heildareignir fyrirtækisins námu í árslok um 656 milljónum dala.