Skipti, móðurfélag Símans, tapaði 3,4 milljörðum króna í fyrra, samanborið við 10,6 milljarða tap árið 2011. Rekstrarhagnaður nam 1.948 milljónum króna, en árið 2011 var 534 milljóna króna rekstrartap hjá fyrirtækinu. Fjármagnsliðir voru neikvæðir um 5,5 milljarða króna í fyrra, en árið 2011 voru þeir neikvæðir um 10,9 milljarða.

Nettósala jókst úr 27,6 milljörðum króna árið 2011 í 28,5 milljarða í fyrra og kostnaður við sölu minnkaði úr 16,2 milljörðum króna í 15,7 milljarða. Rekstrarkostnaður lækkaði lítillega og nam rúmum 9,5 milljörðum króna í fyrra.

EBITDA hagnaður án einskiptisliða nam 8,1 milljörðum króna og hækkaði úr 6,3 milljörðum króna frá fyrra ári. Með áhrifum einskiptisliða er EBITDA hagnaðurinn 7,4 milljarðar króna samanborið við 6 milljarða króna árið áður.

Eignir Skipta í árslok 2012 námu 77,3 milljörðum króna og lækkuðu um rúma tvo milljarða króna milli ára. Skuldir voru á sama tíma 69,4 milljarðar króna og jukust um 1,6 milljarða milli ára. Eigið fé lækkaði úr 11,5 milljörðum króna í 7,9 milljarða.

Í tilkynningu er haft eftir Steini Loga Björnssyni, forstjóra Skipta, að uppgjörið sýni vel þann árangur sem náðst hafi í rekstri Skipta og dótturfélaga á undanförnum árum. Gripið hafi verið til viðamikilla hagræðingaraðgerða og unnið á grundvelli áætlunar sem miði að því að hámarka arðsemi rekstrarfélaganna. Með því hafi verðmæti Skipta verið aukið verulega sem auðveldi fjárhagslega endurskipulagningu til að leggja grunn að nýrri langtímafjármagnsskipan Skipta.

Allir kröfuhafar félagsins hafa samþykkt að gerast aðilar að tillögu Skipta að frjálsum samningum um fjárhagslega endurskipulagningu félagsins.