Bandaríski bankinn, Morgan Stanley tapaði um 2,2 milljörðum dala á fjórða ársfjórðungi eða því sem nemur 2,24 dölum á hvern hlut samanborið við tap upp á 3,6 milljarða dali á sama tíma í fyrra eða því sem nemur um 3,6 dölum á hvern hlut.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá bankanum (sem áður var eingöngu fjárfestingabanki en er nú viðskiptabanki) en fjárhagsdagatali bankans lýkur 30. nóvember. Mestan hluta tapsins má rekja til mikilla afskrifta vegna undirmálslána og slæmrar stöðu á verðbréfamörkuðum.

Tapið nú, sem er annað ársfjórðungstap bankans á síðustu fimm ársfjórðungum, er nokkuð umfram spá greiningaraðila sem höfðu gert ráð fyrir 33 centa tapi á hvern hlut.

Viðmælendur Bloomberg fréttaveitunnar bregðast vel við uppgjörinu þrátt fyrir mikið tap.

„Miðað við aðstæður er þetta sæmilegt hjá bankanum,“ segir einni þeirra.

„Þeim er að takast að skera verulega niður í rekstarkostnaði sem mun skipta máli upp á framhaldið en afskriftir bankans eru engu að síður gífurlegar.

Gengi hlutabréfa Morgan Stanley hefur lækkað um 74% það sem af er ári.

Helsti keppinautur bankans, Goldman Sachs kynnti í gær fyrsta tap sitt frá því að bankinn var skráður á markað árið 1999 en bankinn tapaði á fjórða ársfjórðungi 2,1 milljarði dala sem var þó verulega undir áætlun.