Móðurfélag Airbus, EADS, hefur tilkynnt að tap fyrirtækisins á þriðja ársfjórðungi næmi 195 milljónum evra (17 milljörðum króna), samanborið við 279 milljóna evru (24,3 milljarða krónu) hagnað á sama tímabili í fyrra, segir í frétt Dow Jones.

Tafir sem orðið hafa í framleiðslu og afhendingu á A380 ofurþotunni hafa orðið til þess að skera hefur þurft niður í fyrirtækinu og afkomuspá hefur verið breytt.

Framleiðsla á nýju A350 þotunni er talin skipta sköpum ef fyrirtækið á að standast samkeppni við Boeing í Bandaríkjunum. Flugfélagið EasyJet afturkallaði fyrir skemmstu pöntun frá Airbus og keypti þotur frá Boeing þess í stað.

EADS sagði að tekjur fjórðungsins hafi aukist um 14%, þökk sé sölu á herflugvélum og einkaflugvélum.